Description
Snjallsímaeign er nær algild meðal íslenskra ungmenna í 8.–10. bekk, en tækin gegna lykilhlutverki í daglegum samskiptum og upplýsingaöflun. Samfélagsmiðlanotkun er útbreidd og um 87% notenda fylgja að minnsta kosti einum áhrifavaldi. Matartengt efni er meðal vinsælustu flokkanna og mataráhrifavaldar eru í fjórða sæti yfir þá sem unglingar fylgja. Kynjamunur kemur fram í því að drengir hefja fylgni við mataráhrifavalda seinna en stúlkur, en í 10. bekk hefur þessi munur jafnast að mestu út. Notkun netmiðla í tengslum við mataræði er einnig áberandi; rétt undir þriðjungur stúlkna og um fimmtungur drengja í 10. bekk nýta öpp eða vefsíður til að styðja við hollt mataræði. Greining á WHO-5 vellíðanarkvarðanum sýndi þó engin marktæk tengsl á milli notkunar slíkra verkfæra og andlegrar vellíðanar. Aðeins um 18% nemenda töldu netnotkun almennt styðja við hollara mataræði. Þá hafði hjá meirihluta stúlkna birst upplýsingar um hvernig þær gætu létt sig verulega, sem bendir til aukinnar útsetningar fyrir hugsanlega skaðlegum skilaboðum. Niðurstöðurnar benda til þess að matartengt efni á samfélagsmiðlum hafi fyrst og fremst skírskotun til afþreyingar og lífsstíls, en hafi takmörkuð áhrif á heilsuhegðun og geti jafnframt haft neikvæðar afleiðingar fyrir líkamsímynd og vellíðan.Erindið fjallar um notkun snjallsíma og samfélagsmiðla meðal íslenskra ungmenna, með sérstakri áherslu á fylgni við mataráhrifavalda og mataræði. Byggt er á gögnum úr yfirstandandi könnuninni Börn og netmiðlar, sem Menntavísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmir í samstarfi við Fjölmiðlanefnd. Niðurstöðurnar varpa ljósi á hvernig ungmenni nýta stafræna miðla bæði til afþreyingar og sem leið til upplýsinga um mataræði og heilsu, en einnig á þá áhættu sem felst í aukinni útsetningu fyrir megrunartengdu efni.
| Period | 3 Oct 2025 |
|---|---|
| Event title | Menntakvika 2025: Ráðstefna í menntavísindum |
| Event type | Conference |
| Location | Reykjavík, IcelandShow on map |
| Degree of Recognition | National |
Documents & Links
Related content
-
Projects
-
Börn og netmiðlar
Project: Research