Markmið:
Mannréttindi , fjölmenning og trú á tímum loftslagsbreytinga er þverfaglegt rannsóknarverkefni. Tilgangur MaFTíL er að stuðla að fjölþættu framlagi hug- og félagsvísinda í umræðunni um þau fjölmörgu og brýnu úrlausnarefni sem blasa við mannkyni á tímum hamfarahlýnunar og margvíslegra ógnana í kjölfar hennar. Verkefnið hefur beina skírskotun til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og áherslu þeirra á sjálfbæra þróun. Þá skírskotar verkefnið einnig til megináherslna stefnu Háskóla Íslands 2021-2026 þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni, mannréttindi og fjölbreytileika.
Um verkefnið:
Fyrstu áratugir 21. aldarinnar einkennast af hröðum loftslagsbreytingum. Á sama tíma hafa fólksflutningar aukist og ýmiss konar glímur varðandi fjölmenningu og mannréttindi haldast í hendur við loftslagsmálin. Í þessu verkefni koma saman fræðimenn frá ólíkum fræðasviðum til að rannsaka þessar aðstæður frá ýmsum sjónarhólum, kenningum og aðferðum.
Spurningar sem verkefnið tekst á við eru m.a. þessar: Hvernig hafa loftslagsbreytingar af mannavöldum áhrif á mannréttindi, trú og fjölmenningu? Að hvaða leyti þarf að leita samþættra lausna á þeim risavöxnu vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir? Hvert er trúarlegt samhengi fjölmenningar? Hver er þáttur kristinnar trúar í myndun og mótun hatursorðræðu í garð tiltekinna hópa samfélagsins? Er kristindómurinn rót slíkrar orðræðu og eldsneyti eða geymir hann ef til vill verkfæri sem nýta má gegn henni? Hvað um önnur trúarbrögð? Hvernig kallast sjálfbær þróun á við kenningar í loftslagsmálum og hvers konar trúarleg víddir finnast á þessum veruleika? Hvernig geta kynjagleraugu hjálpað til að skilgreina loftslagsvandann og finna á honum lausnir? Hver er reynsla og upplifun fólks á tímum fjölmenningar og loftslagsbreytinga og að hvaða leyti finnast trúarlegir fletir á þeirri tilvistarglímu? Hvaða áhrif hafa sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna á guðfræðiiðkun og trúarbragðarannsóknir? Hvernig móta nýjar efnahagslegar, vistfræðilegar og samfélagslegar aðstæður á norðurslóðum trúarlegar sjálfsmyndir fólks við ysta haf?