Abstract
Miklar breytingar hafa átt sér stað í tæknilegu umhverfi nútímaþjóðfélagsins bæði hérlendis sem erlendis á undanförnum árum. Þjóðfélagið hefur orðið flóknara og tæknilegt innihald þess fjölbreyttara. Möguleikar einfaldrar magnúrvinnslu hráefna og mikilvægi náttúruauðlinda til að vera efnahagsgrunnur hafa hvarvetna minnkað, en áherslur færst t.d. til aukinnar sérhæfingar í notkun upplýsinga, þekkingar og fjarskipta. Þetta á bæði við á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi . Minnkandi áherslur á þungaiðnað í þróuðum iðnaðarsamfélögum er e.t.v. hliðstæðar því að fiskur sem hráefni er ekki lengur sá efnahagslegi grunnur að íslensku þjóðfélagi sem hann var. Í stað hefur athyglin beinst að mörgum öðrum þáttum svo sem markaði, sérhæfðri úrvinnslu, gæðum o.sv.frv. Auk þess sem orðið hefur ljóst að leita þarf nýrra leiða til að renna stoðum undir íslenskt efnahagslíf í framtíðinni, ef takast á að forða því að landið færist úr fremstu röð varðandi t.d þjóðarframleiðslu á íbúa í það hlutverk að afla hráefnis fyrir meginlöndin til beggja handa. Verkfræðingar og tæknimenntun hafa gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu hins hefðbundna iðnaðarþjóðfélags Vesturlanda á undanförnum áratugum. Hin klassíska verkfræðimenntun hefur líka verið í nokkuð föstum skorðum einkum í stærri samfélögum með verulegan iðnað sem efnahagsgrunn. Íslendingar hafa til þessa fylgt hefðbundnum leiðum í þessari menntun þrátt fyrir sérstöðu íslensks þjóðfélags að mörgu leyti. Má þar nefna skort á útbreiddum iðnaði, smæð þjóðfélagsins, einhæfni í atvinnulífi o. sv. frv. Hvert verður hlutverk verkfræðinga í breyttu þjóðfélagi? Hvaða breytingar á menntun þarf að gera gagnvart breyttum þjóðfélagsaðstæðum? Hvernig er hægt að aðlaga menntun, sem í eðli sínu er alþjóðleg að nefndum íslensku aðstæðum? þetta eru dæmi um áleitnar spurningar í ljósi áðurnefndra breytinga. Stundurm er talað um að þessar breytingar feli í sér byltingar. Í stað iðnbyltingarinnar blasir nú við upplýsinga- og þekkingarbylting. Í stað einangrunar Íslands blasir við samruni eða sterk tenging við efnahagsheildir svo sem Evrópusambandið. Í stað hráefnisöflunar úr sjó, og þjónustu byggða á þeim efnahagsgrunni, blasir við leit að nýjum hlutverkum fyrir Ísland í framtíðinni. Getur það hlutverk falist í t.d. hugbúnaðargerð, ferðamannaiðnaði eða háþróaðri matvælaframleiðslu með markaðssetningu? Margir gera sér grein fyrir að engar einhlítar lausnir eða svör eru til, en ljóst er að lausnirnar krefjast að mörgu leiti nýrra aðferða og nýrrar hugsunar. Sú tíð er liðin að verkefnin séu skilgreind og ráða þurfi bara tæknimenntaða menn til að leysa þau. Hlutverk tæknimenntaðara manna verður í æ ríkara mæli að búa til verkefnin, leysa þau og fylgja þeim til enda. Í þessari skýrslu verður fjallað um það hvernig ofangreindar breytingar kalla á nýja hugsun í tæknimenntun á Íslandi. Fjallað er um hvernig aðlaga má nám sem er í eðli sínu alþjóðlegt að þörfum íslensks þjóðfélags. Að lokum eru síðan gerðar tillögur um tilteknar úrbætur varðandi námið þannig að það mæti sem best settum markmiðum. Tillögurnar miðast einkum við nám í verkfræði en einnig með skírskotun til tæknifræðináms á Íslandi.
| Translated title of the contribution | Technical and Engineering Education in Iceland at the University Level |
|---|---|
| Original language | Icelandic |
| Publication status | Published - 1 Jun 1994 |